Nýtt netfang (new email)
www.skridan@simnet.is
28.12.2010

Nú eru flest hrossin komin á gjöf og einnig nokkrir
nautgripir sem eru einnig á útigangi. Það er gott að fá
ljúffenga töðuna eftir að hafa verið að naga sinuna
undanfarið. Nú er verið að týna inn reiðhrossin, von
er á henni Malin núna strax eftir áramótin svo þá fer allt á
fullt í hestamennskunni. Enda komin tími til að hætta
að kýla vömbina og gera eitthvað að viti. Hafið það
gott um áramótin og gangið hægt um gleðinnar dyr.

23.12.2010

 
Ekta Þorláksmessu stemning í dag í hesthúsinu. Suðum
skötu með kartöflum, rófum, hangifloti og heimabökuðum
þrumara (og saltfisk fyrir þá sem ekki líkuðu skatan).
Skatan var vel sterk og bragðgóð!! og hrossin og kindurnar
virtust ekkert kippa sér upp við lyktina. og Egill var þægur
(bætt við af honum sjálfum).
21.12.2010

Jólatrén sótt í dag. Það gerði meira að segja hlé á
norðan skafrenningnum rétt á meðan, húrra, erum búin að vera
í kófi í viku held ég. Núna mega sem sagt jólin fara
að koma!! Allir voru reyndar eitthvað hálf þreyttir af
myndunum að dæma þar sem alltaf einhver var með lokuð
augun.<
10.12.2010

Fórum í smá rekstur í dag í rigningunni. Ekki beint jólalegt
á að líta. 10 stiga hiti og rok, allur snjór að verða farin
og við að keyra skít. Maður er í meiri vor fíling en
jóla!!. Þó skal gera laufabrauð í kvöld og á morgun.
21.11.2010

Helgin fór að mestu í að færa hross á milli hólfa og
skipuleggja beit og gjafir. Það er flokka þau eftir
því hvort þau þurfa á heyji að halda strax eður ei. Á
fyrstu myndinni eru ungfolarnir okkar í sólskininu, svo koma
öldungarnir labbandi eftir veginum. Eins og sjá má var
veðrið rosalega fallegt þó að frostið biti svolítið í
kinnarnar (og tærnar). klikkið á myndirnar til að sjá þær
stærri

Folöldin stækka og stækka en þykir þó enn sopinn góður.
(Rauðhetta og Breki, Sunna og Svás og Freydís og Z.)
Þau fá að fylgja merunum fram að áramótum en þá tökum við
þau undan og setjum í sér hólf.


Breki Roðason er algjört kelidýr. Var gerður gæfur á
nokkrum mínútum í dag og hún Z litla Stígsdóttir var
ógurlega forvitin líka. Þau sóttu þó fastar í krakkana
en okkur fullorðna fólkið og engan skal nú undra það!!!!!

Þetta er svo hesturinn sem við fengum í hestakaupum á
Laufskálarétt, hann er risastór og þroskamikill foli á
þriðja vetur og ekki skemmir nú liturinn fyrir honum.
14.11.2010


Dagurinn í dag!! Loksins komið logn og hætt að snjóa en
veðrið skildi eftir sig heilan ævintýraheim í garðinum
okkar.
07.11.2010

Rúningur í dag. Sjá sauðfé.
01.11.2010

Fullt af myndum úr fjallgöngum sumarsins og fleira inn
á myndir.
01.11.2010

Í gær fórum við með gimbrarnar sem Stefanía og
Sumarliði á Rauðalæk keyptu af okkur, yfir á Rauðalæk.
Þau keyptu 26 gimbrar af okkur og fleiri á öðrum bæum svo
fjárbúið hjá þeim er stöðugt að stækka. Hún Ótta,
bordercollie tíkin okkar, eignaðist 3 hvolpa á dögunum og
eru þeir ekkert smá sætir og vinsælir hjá yngri kynslóðinni.
Einn hundur og tvær tíkur ef einhver vill??

31.10.2010

Í garðinum okkar eru gömul reynitré, sem hafa einkennt bæinn
okkar í gegnum tíðina. Á hverju ári koma alltaf
einhverjir við til að líta á þessi gömlu tré. Í haust
féll svo eitt þeirra, bara brotnaði niður einn daginn í
blíðuveðri. Á myndinni eru skólafélagar Jónsteins
Helga búin að stilla sér upp á gamla trénu og þótti ekki
leiðinlegt að klifra á því.
30.10.2010


Haustið er búið að vera yndislegt, frábærar stillur og
flottir haustlitir. Nú blæs norðan, með éljum og
leiðindum en svona er þetta bara. Veturinn er víst
genginn í garð.
30.10.2010

Þessa dagana er allt á fullu í tamningum. Húsið nánast
fullt af 4. vetra tryppum og eru þau nú öll að verða
reiðfær. Sigurður Hermannsson, eða Siggi á Barká eins
og hann er nú yfirleitt kallaður, er búin að vera hjá okkur
í nokkrar vikur í tamningum. Þór hleypur svo í að
hjálpa honum þegar tími gefst til. Mörg efnileg tryppi
að hefja sinn feril, en við byrjum aðeins á þeim núna, gerum
þau reiðfær og svo fá þau frí eitthvað fram á vetur. Á
myndunum eru Ársól Klettsdóttir og nýja mósa frá Ytri
Hofdölum sem ekki hefur hlotið nafn ennþá.
25.10.2010

Eins og gengur og gerist eru nokkur hross búin að skipta um
eigendur. Hann Ásgarður frá Neðri Vindheimum er t.d.
fluttur í Ytri Hofdali í Skagafirði og í staðinn eigum við
mósótta meri á fjórðavetur og leirljósblesóttan fola á
þriðjavetur. Þannig að það er alltaf líf í viðskiptum,
en hann Þór hefur alveg óendanlega gaman af svona
hestakaupum. En þessi skipti áttu sér stað á
Laufskálarétt í haust. Við fórum þangað og riðum upp í
Kolbeinsdal ásamt u.þ.b 400 kátum hestamönnum og konum.
Fórum síðan ríðandi með þeim í Brimnesi með stóðið þeirra
heim.
25.10.2010

Kíkið á önnur dýr
24.10.2010

Jæja þá er loksins komið líf á heimasíðuna aftur eftir
tveggja mánaða hlé, sem skapaðist sökum anna, bilunar í
tölvu og leti í húsmóðurinni. En betra er seint en
aldrei!! Nú er fjárragi að mestu lokið, búin að fara
oft í göngur og sækja margar kindur og hrista af okkur
spikið í leiðinni (þó verður maður nú að skilja smá eftir,
svona fyrir veturinn). Þoka lá yfir í fyrstu göngum
hér heima sem gerði daginn frekar ævintýralegan. Í
talstöðvunum mátti oft heyra setningar eins og "hvar
er ég"? "nennir þú að hóa svo ég viti hvar þú ert" og svo
framvegis. Í lok dags töldum við okkur þó góð og héldum að
nánast ekkert fé hefði orðið eftir. En morguninn eftir
voru hvítir deplar upp um allt fjall svo þónokkrar náðu að
snúa á okkur í þokunni.
Kíkið inn á sauðfé til að sjá
myndir.
26.08.2010

Hann Stígur okkar komst nú loksins í dóm í síðustu viku.
Stígur er 5 vetra undan Hágangi frá Narfastöðum og
Gullinstjörnu frá Akureyri.
Stígur er stór og fallegur, enda fékk hann 8,21 í byggingu,
og fljúgandi reiðhestur með góðan vilja. Við vorum
bara sátt við dóminn á honum og þið getið séð dóminn
hér en hann hlaut m.a. 8,5
fyrir tölt.
14.08.2010


Versló 2010!!
12.08.2010


Það
fór þó ekki svo að fjölskyldan næði ekki einu hestamóti í
sumar. Við drifum okkur í Einarsstaði í Reykjadal um
síðustu helgi og skemmtum okkur vel í góðra vina hópi.
Sigmundur Sigurjónsson flutti hrossin fyrir okkur á
sérútbúnum hestaflutningabíl sem hann á og fór hann með yfir
20 hross fyrir okkur og nágranna okkar. Þar var síðan
keppt í öllum greinum, grillað, riðið út og drukkinn smá
bjór auðvitað!!! Allir voru sáttir við sitt og voru
riðin nokkur úrslit á sunnudeginum. Þór varð í öðru
sæti í 100 m. skeiði á Demanti frá Litla Dunhaga. En
annað hvort hefur Demantur farið of hratt fyrir myndavélina
eða húsmóðirin verið of dolfallin við að horfa á bóndann
fljúga framhjá, allavega náði hún þeim ekki á mynd.
Eyrún þreytti frumraun sína í skeiðkappreiðum á Seif frá
Skriðu. Gamli skeiðaði flott hjá henni annan sprettinn
og var hún því að vonum ánægð. Á fyrstu myndinni eru
Þór og Dalrós í B- úrslitum í B flokki, svo Björgvin
Helgason á Birtu frá Skriðu. Björgvin er að temja hjá
okkur núna ásamt Eyrúnu og gengur alveg glimrandi vel.
Honum gekk vel og endaði minnir mig nr. 4 í unglingaflokki á
henni Birtu okkar sem er bara 5 vetra gömul. Svo er
Agnar á Þotu frá Hrafnagili, svo Eyrún á Sól og Svo
Egill, Jónsteinn og Oddrún í miðnæturreiðtúr. Egill á
Gullbrá og Svo Eyrún á flugskeiði.
02.08.2010

Brunuðum eitt kvöldið út í Kjarna í fyrrverandi
Arnarneshreppi og sóttum Stíg en
hann var í merum þar hjá þeim hjónum Davíð og Sigrúnu.
Nú er hann komin á járn á nýjan leik og vonandi tekst að
sýna hann í haust. Það átti að sýna hann í vor en hann
hóstaði og hóstaði svo nú krossum við fingur um að hann sé
orðin heill heilsu á ný. Erum með ungfolana okkar hjá
þeim líka í hólfi og kíktum á þá í leiðinni.
Þeir voru vel feitir og pattaralegir enda allt á kafi í
grasi í hólfinu hjá þeim. Ekki amalegt það.
Veðrið var yndilegt og kvelsólin skein og Egill Már notaði
tækifærið til að klappa köppunum aðeins. En það eru
þeir Skjálti og Dynur sem eru svona forvitnir.


28.07.2010

Sumarið líður hratt eins og sést á honum Klók, gæsarunganum
okkar sem var svo lítill og sætur bara rétt um daginn, en er
nú að verða heljarinnar gæs sem skilur eftir sig heljarinnar
úrgang á bæjarhlaðinu. Gæsirnar kjósa helst að liggja
við þvottahúshurðina enda vita þær að þar er mesti
umgangurinn og mesta fjörið. Hann Atli vinnumaður er
síðan að sóla sig í blíðunni á meðan hann talar í símann, en
það er nú sem betur fer ekki það eina sem hann gerir í
sveitinni, enda hörkuduglegur, ungur drengur þar á ferð og
vel upp alinn, Guðmundur. Við biðjum að heilsa út á
ballarhaf!!!!
23.07.2010

Þarna eru tveir gamlir snillingar á ferð en það eru þeir
Grettir (25 vetra) og Snerill (?). Þeirra aðalhlutverk
er að skemmta krökkunum. Þeir eru notaðir til að æfa
sig í að stökkva á bak berbakt, sækja kýrnar og fleira. Á
baki eru Egill Már, Ragnheiður Fjóla og Ólöf Rún. Það
eru svo Ragnheiður Sverrisd. og Stella sem reka lestina.
22.07.2010


Vorum í "hestaferð" í síðustu viku. Þetta var svona
öðruvísi hestaferð þar sem við ferðuðumst milli mjalta og
sváfum heima. Margir kostir við það, þurftum ekki
afleysingu í fjósið, enginn farangur og ekkert vesen.
Við fórum fram í eyjafjarðarsveit og þvældumst eitthvað um.
Þannig að hrossin eru nú komin í ágætisform og allt á
uppleið. Við eigum núna þónokkra unga og mjög efnilega
fola til sölu. Til stendur að mynda þá og auglýsa sem
fyrst eða um leið og tími gefst til. Það er bara ekki
alveg nóg til af honum á þessum árstíma!!!
Annars er þetta dagurinn sem við kláruðum að slá fyrrislátt
og hófum þann seinni. þannig að það er engin pása
milli slátta´í ár. Allt stefnir í met í heyfeng svo
ekki þarf að óttast heyleysi næsta vetur.
08.07.2010



Nú er rigningatíð í Hörgárdalnum og því pása í heyskap í
bili. Við, sem vorum búin að grátbiðja um rigningu,
erum farin að bíða eftir að stytti upp svo hægt sé að klára
fyrri slátt. En við erum þó að nota rigningadagana í
allt það sem ekki er tími til að gera í þurrki. Svo
sem að járna, þrífa til, keyra rúllur og seinast en ekki
síst ríða út. Drifum okkur í Baugasel einn
daginn með góðum vinum og grilluðum læri í jörðu. Með
í för voru einnig mamma og systir Malinar þær Aníta og Anna
frá Svíþjóð. Þær ætluðu á landsmót og þar sem þær voru
búnar að kaupa miða komu þær bara samt í heimsókn. Þær
fóru svo út í dag og Malin með þeim. En hún er búin að
vera að vinna hjá okkur í eitt og hálft ár og búin að standa
sig mjög vel. Takk Malin fyrir allt!!!
Gleðifréttin er sú að hún ætlar líklega að koma aftur um
áramót og temja hjá okkur næsta vetur.
28.06.2010

Veðrið undanfarið er búið að vera frábært, enda búið að vera
allt að fullu í heyskap hér í sveitinni. Sólin hefur
ekkert verið að spara sig og litbrigðin á nóttunni frábær
eins og þessar myndir sýna. Svo frábær að það er
erfitt að hafa sig í það að sofa eitthvað. Manni
finnst maður alltaf vera að missa af einhverju!!!!
Sigga og krakkarnir brugðu sér í borgina um helgina um
háskaðræðistímann eins og frægur maður sagði eitt sinn.
Þau fóru í frábært brúðkaup, svömluðu í Nauthólsvíkinni,
borðuðu á "fabrikkunni" og margt fleira. Malin og
Eyrún eru alltaf að temja eitthvað, við höfum sloppið nokkuð
vel við þessa hestapesti 7,9,13!!! aðeins fáein hross
sýnt einhver smá einkenni og þá farið í frí með það sama.
17.06.2010

Hæ hó jibbíjeiogjibbíijei!!!! Gleðilega þjóðhátíð
16.06.2010


Þetta hestfolald er undan Rauðhettu frá Haga og Roða frá
Múla og hefur hann hlotið nafnið Breki frá Skriðu.
Hann fer bara um á tölti með flottum fótaburði og "á" að
verða framtíðarreiðhestur húsmóðurinnar á bænum. Enda
hafði Breki mikinn áhuga á henni þar sem hún lá á jörðinni
með myndavélina að vopni og mömmu gömlu þótti líka vissara
að vita hvað sá stutti væri að skoða!!! Á síðustu myndinni
er hann svo að kljást við hana Svás.
14.06.2010
   
Þetta er fjörkálfurinn hún Svás (Jónsdóttir og
Sunnu), hún er mjög fjörug og
forvitin og eins og sjá má á myndunum efnileg í
hindrunarstökki, auk þess sem hún rúllar um á öllum gangi og
tekur vel á því í skeiðsprettunum þó hún sé ekki gömul.
14.06.2010


Moli virðist bara vera að "Fíla" sig vel í Noregi hjá
eiganda sínum Kine Nordbrekkan. Hann er nú í hólfi með
merum og af myndunum að dæma hefur hann engu gleymt karlinn.
En þessar myndir fékk ég að láni hjá henni Kine.
Klikkið á þær til að sjá þær stærri.
08.06.2010

Það fæðast ekki bara folöld út í haganum þessa dagana.
Hún Alfa bar óvænt suður í hólfi í nótt og eignaðist þetta
litfagra naut. Alfa er mikil mamma og passaði litla
guttann vel enda gekk ekki alvega áfallalaust að koma þeim í
hús en það tókst eftir smá eltingaleik.
06.06.2010

Kýrnar fóru loksins út í dag og var fjör í þeim að
vanda. Margmenni var við athöfnina og allir skemmtu
sér vel. Hún Blesa gamla er orðin frekar þreytt og
sigin og fékk því að vera á blettinum fyrir framan
fjósið ásamt nokkrum veikburða vinkonum sínum!!.
02.06.2010

Það voru mikil vonbrigði að sjá brúnt folald koma í heiminn snemma á
föstudagsmorgun og meira að segja hestfolald. En það
var búið að panta moldótta meri úr úr henni
Drottningu. Faðirinn er Kopar frá Hvanneyri, jarpur
Þorrasonur, sem við eigum með Jóni Páli og Jónínu.
Reiknilíkön voru búin að segja til um 80 % líkur á
moldóttu/leirljósu og ekki átti að vera nema kanski 2 %
líkur á brúnu en svo kom brúnt. En strax og hann stóð
á fætur máttum við bíta í tunguna á okkur því þó hann sé
"bara brúnstjörnóttur" er hann án efa það fallegasta
folald sem við höfum átt. Hann hefur ekki hlotið nafn
ennþá, við finnum ekkert sem hæfir svona glæsipilt en það
hlýtur að koma fljótlega.

Þessi litla dama kom svo í morgun, hún er undan honum Mola
okkar og Pílu frá Hólkoti. Hún er næstsíðasta folaldið
sem fæðist undan Mola hér í Skriðu og hefur hún hlotið
nafnið Míla.
30.05.2010

Nú er stormasöm helgi að baki með tilheyrandi sviptingum í
þjóðlífinu. Sögulegar kosningar, sumir sáttir en aðrir
ekki og svo söngvakeppnin sem við ætluðum náttúrulega að
vinna eins og alltaf en gekk sem betur fer ekki eftir.
En hér á bæ féllu bæði pólitíkin og evrovision í
skuggann af þremur litlum félögum sem hafa hlotið nöfnin:
Klókur, Dúna og Svala. Svala klaktist úr eggi heima í
stofu. Henni leiddist náttúrulega svo börnin fóru á
ungaveiðar og náðu í tvo í viðbót. Það þurfti svo að
græja aðstöðu fyrir krílin svo þau geti verið úti á daginn.
En fyrst um sinn fá þau að gista í herberginu hans Agnars
Páls.

Nú er skólinn búinn og voru þessar sundmyndir teknar á
vorhátíð skólans á föstudaginn. Svo eru Amma
Sigurbjörg og Jónsteinn að þrífa til í blómabeðinu.
29.05.2010
 
Þór sýndi 3 merar á kynbótasýningu fram á Melgerðismelum um
daginn. Það voru þær Dalrós,
Birta og
Hetja. Klikkið á nöfnin
til að sjá dóminn.
28.05.2010

Það er fjölgun í fleiru en hrossum og sauðfé hér á bæ.
En á dögunum komu 4 hvítir kanínuungar, ægilega sætir
hárhnoðrar. Einn er búin að fá heimili á Rauðalæk en
hinum vantar sárlega heimili. Ef einhver hefur áhuga
þá endilega sendið póst eða hringið í síma 8630057.
26.05.2010

Það var leikur í ungfolunum núna um daginn þegar við fluttum
þá á milli hólfa. Þetta eru þeir Skjálfti og
Kjarkur (frá Skriðu báðir 2) að fljúgast á. Slagurinn
var samt bara svona að gamni og engin slasaði sig við
þetta brölt.
26.05.2010
 

Jæja nú fjölgar óðum í hrossastóðinu. Þrjú folöld fædd
og allt merar. Ekki amalegt það. Fremst er Héla
með hana Myrká sína, en Myrká er undan Ægi frá Litla-Landi.
Síðan kemur hún Sunna gamla með hana Svás .
Svás er undan Jóni frá Sámsstöðum (undan Þoku frá Ak. og
Eldjárni frá Tjaldhólum). Síðust er svo List með
nýkastað merfolald undan Tenór frá Túnsbergi. Svás og
litla Tenórsdóttirin verða vel líklega báðar gráar.
17.05.2010
sjá sauðfé, nokkrar nýjar
myndir úr fjárhúsunum.
12.05.2010

Þau voru skrautleg og skemmtileg krakkarnir í Létti
sem ætluðu með atriði á æskan og hesturinn á Sauðárkróki um
daginn. Sýningunni var frestað vegna flensunnar. Í
staðinn var haldinn sýning í Topreiter höllinni á Akureyri
og var það mjög gaman. Þau settu upp atriði um nýju fötin
keisarans. Agnar og Egill voru lífverðir keisarans og voru
þeir á Birtu og Hetju. A miðju myndinni eru systurnar
Þóra og Pálína Höskuldsdætur sem fóru á kostum sem hirðfífl.
09.05.2010

Nú er fyrsta folaldið fætt hér í Skriðu, það fæddist fyrir
mánaðarmótin apríl maí. Það er brún hryssa sem hlotið
hefur nafnið Myrká. Hún er stór og gullfalleg
undan Hélu frá Skriðu og Ægi frá Litlalandi. Því miður
náðist ekki mynd af djásninu áður en hún fylgdi móður sinni
suður á land, en Héla fór undir Sædyn frá Múla og krossum
við fingur og vonum að hún komi fylfull til baka.
Annars er allt á fullu, sauðburðurinn langt komin, ekki nema
20 eftir að bera. Vonandi láta þær ekki bíða lengi
eftir sér.
27.04.2010

Nú er margt farið að minna á að sumarið sé að koma.
Það er alltaf jafn gaman þegar allt tekur við sér eftir
veturinn, bæði fólk, dýr og gróður. En þó fylgir
þessum árstíma einn ókostur og það er að ekki eru nógu
margir klukkutímar í hverjum sólarhring til að gera
allt sem á að gera. En einhvern veginn hefst þetta nú
alltaf alltsaman. Sauðburðurinn fór af stað með
krafti og nú eru komin mörg lömb í húsin og svo eru
farfuglarnir farnir að týnast til baka frá suðrænum slóðum.
Sem betur fer virðist askan úr Eyjafjallajökli ekki stöðva
þá á sínum ferðalögum, frekar en mig. Ég fór til
Tromsö í N- Noregi að heimsækja vinkonu mína um daginn.
Það var rosalega gaman en ég stoppaði þó aðeins styttra en
til stóð, þar sem við tókum fyrstu vél heim þegar tækifæri
gafst út af öskunni.

06.04.2010

Nýr á sölusíðunni er
Molasonurinn Skrúður frá Skriðu!!!
04.04.2010
Um
síðustu helgi var nýja reiðhöllin á Björgum vígð með
viðhöfn. Það var haldið mót og keppt var í þrígangi og
skeiði. Fjöldi manns var að keppa sem og að horfa á og
var þetta rosalega skemmtilegur dagur sem endaði svo með
gleðskap langt fram á nótt. Takk fyrir okkur
Bjargarbændur og búalið. Þór og Malin voru að keppa og
endaði Þór í öðru sæti í skeiði á Demanti frá Litla-Dunhaga
og svo í fjórða sæti í þrígangi á Dalrós frá Arnarstöðum.
03.04.2010

Í dag var líflandsmótið í reiðhöllinni á Akureyri, en það er
mót sem æskulýðsnefnd Léttis og Lífland heldur fyrir börn og
unglinga. Þetta var flott mót og voru krakkarnir vel
ríðandi. Agnar keppti á Hetju frá Garðsá og Egill á
Birtu frá Skriðu í Tölti. Þeir stóðu sig mjög vel og
höfðu gaman af. Allir krakkarnir fengu svo páskaegg í
lokin. Við litum svo aðeins á dúfurnar hjá honum Agli
Má Vignissyni á heimleiðinni og nú er spurning hversu margir
dagar líða áður en það verða komnar dúfur í Skriðu !
22.03.2010

Nýr á sölusíðunni er Skjálfti
frá Skriðu!!! SELDUR
22.03.2010
 

Á miðvikudaginn síðasta var Moli kvaddur og fóru allir
krakkarnir smá sprett á honum í kveðjuskyni. Nú er
Moli komin á nýja heimilið sitt í Noregi og heilsast vel
eftir flugferðina að sögn núverandi eiganda hans, Kine
Nordbrekken. Hann flaug út á laugardaginn
síðasta. Moli var í þrusu stuði þegar hann fór eins og
myndirnar sýna.
09.03.2010

Hún Susanna í Lönguhlíð kom hérna við um daginn með nýju
fínu myndavélina sína og smellti af nokkrum myndum af Malin
og Þór. Þór er á efnilegri 4 vetra Moladóttur sem
heitir Stella og er frá Skriðu. Stella er rosalega
skemmtilegt og auðvelt tryppi og er í eigu Páls Skúlasonar
frænda Siggu. Malin er svo á honum Víkingi sínum sem
er núfarin að tölta og verður rosa flottur. Með í för
eru svo Garri, Ótta og Bubbi!!!
Susanna tók einnig þessar myndir fyrir neðan en þær eru
teknar á ísmótinu á Dalvík sem haldið var nú í febrúar.
Þór er á Dömu frá Arnarstöðum og Kopar frá Hvanneyri en
Malin er á Hetju frá Garðsá.
23.02.2010

Nú er hann Moli okkar á leið úr landi og er hann líklega sá
eini úr fjölskyldunni sem fær að fara í utanlandsferð á
þessu kreppu ári. Hann fer til Noregs núna í byrjun
mars til Kine Nordbrekken og Bjørg Bystrøm . Það
verður mikill sorgardagur í Skriðu þegar hann fer enda er
hann eins og Gullinstjarna mamma hans algjör sjarmör!!
En það á ekki eftir að væsa um hann hjá nýjum eigendum og
óskum við þeim góðs gengis og til hamingju.
22.02.2010

Skjótt skipast veður í lofti. Þessar myndir eru teknar
fyrir svona 10 dögum síðan, þá var veðurblíðan slík að maður
hélt að það væri að koma vor. Jónsteinn fékk sér göngutúr
upp í fjall með brauð handa folaldmerunum og leiddist þeim
það ekki. En nú snjóar bara og snjóar og snjóar aftur
ojbjakkk.
14.02.2010

Þetta er hún Synd okkar, en hún er undan Gullinstjörnu og
Mola (sem er líka undan Gullinstjörnu). Hún ber sem sagt
nafnið sitt með rentu. Það vildi svo til að
Gullinstjarna gamla var búin að fara undir eina 3 graðhesta
sumarið 2006 og ekkert gekk. Við litum svo á að sú
gamla myndi bara ekkert halda meir, væri bara ónýt, og
settum hana bara með hópnum hans Molar þegar hún kom heim.
Það var eins og við manninn mælt að hún fékk í hvelli og
sumarið 2007 kom hún Synd í heiminn, nákvæm eftirmynd móður
sinnar enda ekki við öðru að búast. En hún Synd
slasaði sig svo aðeins um daginn, fékk líklega nagla í
hófinn og var tekin inn til meðhöndlunar og er nú hin
sprækasta á ný.
13.02.2010
Eitt
er það sem tekur sífelldum breytingum hér á bæ og það er
hundaeignin. Á fyrstu myndinni er nýjasti meðlimurinn
í hundafjölskyldunni okkar. Hún er frá Birni Jóhanni
og Kiddu í Hólakoti á Reykjaströnd og heitir Æsa. Hún
er, eins og hinir, hreinræktaður Border collie en sérstök á
litinn. En fyrir áttum við þau Óttu og Garra.
Ótta er frá Lönguhlíð en Garri heimaræktaður og faðir bæði
Óttu og Æsu. Hinar myndirnar eru svo af
vinnuglöðum karlmönnum að þrífa hesthúsið!!!!
24.01 2010
 
Það er vor í lofti í byrjun Þorra og ætlar hann "vonandi" að
fara mildum höndum um okkur í ár. Veðrið um helgina
var frábært og börnin héldu í alvöru að það væri að koma
sumar og voru eins og kálfar sem sleppa út að vori.
Við notuðum veðurblíðuna og fórum í góðan reiðtúr og leyfðum
hrossunum að hlaupa aðeins úr sér. Á myndunum er Egill
á Birtu og Gleði, en þær eru báðar undan Mola. Birta
(sú blesótta) er á 5. vetur og er með eindæmun skapgóð og
þæg hryssa. Gleði er svo frá Höfða í Grýtubakkahreppi.
Hún er á 4. vetur og er Malin að temja hana núna.

18.01 2010

Við eigum nú þrjú ný merfolöld undan Stíg frá Skriðu.
Þær Öldu frá Brimnesi (sú jarpa), Kringlu frá Steinstöðum
(Sú rauðgráa) og Gloppu frá Steinstöðum. Þær eru allar
gæfar og rólegar sérstaklega Kringla sem er algjör
dekurrófa. Alda og Gloppa komust báðar í úrslit á
folaldasýningunni en Kringla var heima þar sem hún hefur
meiri áhuga á að láta klappa sér en að láta reka sig til með
öðrum hrossum!!
18.01.2010


Á laugardaginn síðasta fór fram árleg folaldasýning Framfara
og var hún haldin í nýrri og glæsilegri reiðhöll á Björgum í
Hörgárdal (sjá heimasíðu
www.bjorg1.is ). Við fórum með hóp af folöldum á
sýninguna og vorum bara nokkuð ánægð með hópinn.
Í hópi 8 efstu meranna áttum við Sóldögg frá Skriðu,
svartskjótta Mola og Listar dóttur, og endaði hún í öðru
sæti. Sóldögg er algjör töltmilla með mikinn fótaburð. Svo
voru þar einnig Lilja frá Skriðu (Geisla og Freyjudóttir),
Gloppa frá Steinstöðum (Stígsdóttir) og Alda frá Brimnesi
(einnig Stígsdóttir). Í hópi hestfolalda í
undanúrslitum áttum við svo Svarta-Örn frá Litla-Dunhaga en
hann er Molasonur sem Þór á í félagi með Jósavini
Gunnarssyni í Litla-Dunhaga. Gustur frá Skriðu var svo í
þriðja sæti en hann er undan Geisla frá Úlfstöðum og
Kolbrúnu frá Skriðu og er í eigu Davíðs bróður Siggu.
Fínn dagur, fullt af fólki og toppaðstaða. Efsta
hestfolaldið var frá Möðurfelli og efsta merfolaldið frá
Ytra-Brekkukoti og óskum við eigendum þeirra til hamingju.
05.01.2010

Nú er vetur í bæ og allt á kafi í snjó. Frostið bítur
í kinnarnar en birtan úti er ótrúlega falleg allan
sólarhringinn. Nú eru öll hross komin á gjöf og
erum við búin að vera að safna þeim saman undanfarið.
Búið er að sækja tryppinn fram á Barkárdal og var það
ævintýraferð. Þór fékk nokkra góða menn með sér á
snjósleðum til að sækja þau og þurftu þeir að leita nokkuð
lengi og viða af þeim og fundu þau svo að lokum fram á
Myrkárdal. Það var komið myrkur þegar þau loksins
komust í skjól. Við hjónin örkuðum hér upp í
fjall á annan í jólum að sækja hrossin sem voru þar. Á
miðri leið brast á með skafrenningi og látum en við komumst
fyrir rest með hrossin heim að bæ, en vorum orðin bæði
þreytt og kalt. Þannig að þetta hefur nú ekkert allt
gengið alveg smurt. Hesthúsið er nú að fyllast af
hrossum og allt að fara á fullt í hestamennskunni.
Malin tamnigakonan kemur heim frá Svíþjóð eftir 10 daga og
þá þarf allt að vera klárt svo hún geti hellt sér í
tamningar.
Á myndunum eru Egill og Stör. Stör er undan
Stíg okkar og
Hélu frá Skriðu. Hún er algjör kelurófa og veit
ekkert betra en að fá klapp. Þannig er reyndar með
flest folöldin undan Stíg enda var hann svona sjálfur.
Síðan eru Egill og Eyrún að fara með Hetju og Birtu í hús
enda haustorlofið búið hjá þeim. Kíkið inn á
kýr og sjáið myndir af flottum
jólakálfi!!
04.01.2010

Gleðilegt ár allir saman og takk fyrir það gamla.
26.12.2009

Það eru hvít jól í ár, það einfaldlega snjóar og snjóar og
snjóar meira og svo aðeins meira. Núna er meira að
segja komið rok líka svo það sést ekki út úr augum.
Þeir sem lágu á bæn um hvít jól hafa allavega verið
bænheyrðir!!!!!
24.12.2009

12.12.2009
Héðan er nú allt fínt að frétta,það hefur verið alveg
frábært reiðfæri undanfarið, ís yfir allan veginn (ekki eins
gaman að keyra bíl og að ríða út). En nú er 10 stiga
hiti og allt svell farið. Alveg yndislegt veður en
rosalegt myrkur þar sem enginn er snjórinn til að lýsa upp
skammdegið. En þá er bara að hengja upp fleiri
jólaseríur!!!!! Árlegri barnaafmælishrinu er nú einnig
lokið með tilheyrandi fjöri og sælgætisáti og allt að falla
í ró og spekt á ný. 500 laufabrauðskökur voru flattar
út á eldhúsbekknum í Skriðu í gær og í dag svo við erum
einnig að undirbúa komu jólanna eins og aðrir landsmenn.
En þeir Faxi, Grettir og Seifur hafa ekki minnsta áhuga á
jólunum, heldur njóta bara lífsins í heldri-hesta-hólfinu,
lausir við allar heimsins áhyggjur.
10.12.2009

Nú er búið að uppfæra aðeins sölusíðuna og nýr hestur á
henni er graðhesturinn Geisli frá Úlfstöðum. Geisli er
með fyrstu verðlaun og er frábær fjórgangari. Kíkið á
hross til sölu.
01.12.2009
Í sumar var hún Natalie frá Svíþjóð hjá okkur í nokkrar
vikur. Hún er í Íslandshestaskóla út í Svíþjóð og kom
í verknám til okkar. Hún tók margar skemmtilegar
myndir meðan hún var hér.
Ýtið hér til að skoða nokkrar
þeirra
29.11.2009
Tveir snillingar á ferð í dag Egill Már (7ára) og Moli (8
ára). Það fór vel á með þeim eins og áður og brosti sá
yngri í tvo hringi eftir reiðtúrinn.
29.11.2009

Þetta er hún Rimma frá Ytri-Bægisá, Rimma er undan Mætti frá
Ytri-Hofdölum og Kleópötru frá Skriðu. Kleópatra var
undan Sindra frá Kirkjubæ, "fermingargjöfinni hennar Siggu".
Sindri var mikill skeiðhestur og var felldur vorið
2007. Haukur Sigfússon á Bægisá gaf Siggu þessa meri
nú í haust, og er hún eini afkomandi Sindra hér á landi.
Rimma er hágeng og þæg meri og ekki skemmir nú liturinn
fyrir henni.
20.11.2009
Kíkið á hvaða merar fóru undir hvaða hesta sumarið 2009!!
Fyljunarlisti 2009
20.11.2009

Í nógu er að snúast þessa dagana, sem og aðra. Malin
er á fullu í tamningum og á myndinni er hún með Moladóttir
sem er ný komin til okkar í tamningu. En hún er frá
Litla-Dunhaga og í eigu Jósavins Gunnarssonar. Nú er
verið að brasa í að draga undan og sleppa hrossum og járna
ný, rýja kindur, keyra skít og svo framvegis.
Kindurnar eru nú allar klipptar og komnar í hús og á fyrstu
myndinni er Friðjón að ganga frá ullar sekkjunum.
Ullina þarf að flokka eftir lit og gæðum , vigta þarf
sekkina og merkja vel áður en ullin er send til vinnslu.
12.11.2009

Nú á loksins eitthvað að fara að gerast í hrossasölu á
bænum, Tvær nýjar merar á
sölusíðunni og fleiri hross á leiðinni næstu daga.
Þetta eru þær Sól og Dama frá Arnarstöðum. Sól er
undan Mola frá Skriðu og Dama undan Koðrán frá Kommu.
Endilega kíkið á Hross til sölu og sjáið video af merunum.
Húsmóðirin gerist æ tæknivæddari reyndar með dyggri aðstoð
frá tamningakonunni. Húrra fyrir því og eigið öll góða
daga!!!
08.11.2009

Nú er jólahangikjötið klárt fyrir þetta ár, ekkert kemur
manni í meira jólaskap en ilmurinn af nýreyktu
hangikjötinu og best er að skera sér væna sneið af því
um leið og það er sagað ummmmmmmmmmm.
26.10.2009


Hér eru myndir af 5 afkvæmum Mola sem við erum búin að
temja, þau eru Sól frá Arnarstöðum á fyrstu myndinni, svo
Björg frá Björgum í eigu Vidda og Ollu á Björgum (www.bjorg1.is)
, þá Dalrós frá Arnarstöðum, Birta frá Skriðu og Tvistur frá
Arnarstöðum. Rauðskjótta merin heitir svo Fiðla frá
Skriðu og er hún nú komin á hús og búið að setja á hana
hnakk. Hún er að koma inn á fjórða vetur núna og er
mjög þæg og spennandi. Malin tamningakonan okkar er nú
alveg á fullu í frumtamningum og gengur það bara ljómandi
vel hjá henni, enda er hún Malin með eindæmum róleg og
yfirveguð og hefur lag á að róa tryppin.
21.10.2009

Eins og alltaf var haldin hrútasýning hér í sveit á
haustdögum. Að þessu sinni var hún haldin í Garðshorni
og kom þangað hópur af fólki og enn stærri hópur af hrútum.
Við fórum með feðgana Fálka og Ás. Fálki varð annar í
hópi veturgamalla hrúta á eftir stórstirninu Lambás frá
Sveinungsvík. Ás er lambhrútur og lenti hann í 2-3
sæti í lamhrútahópnum. Það er gaman að segja frá því
að Ás er undan Fálka og ennig lambhrúturinn sem stóð efstur,
en hann er frá Lönguhlíð (skýrir sælubrosið á Braga bónda).
Það var hún Eva María í Lönguhlíð sem tók þessar myndir.
14.10.2009

Fór og leit á folaldsmerarnar í fjallinu í dag og voru þær
feitar og pattaralegar. "Vildi að það þætti einnig
kostur við mömmur að vera taldar feitar og pattaralegar" en
það er nú önnur saga. Ég smellti af þessum skemmtilegu
myndum og er það hann Skrúður Molasonur sem sefur svona
fast. Kíkið inn á
hross/unghross og skoðið folöldin okkar frá því í vor
13.10.2009

Kíkið á hross til sölu.
Þar er nýr foli, Djákni frá Skriðu, veturgamall og ógeltur
undan Mola.
29.09.2009

Ferð á Strandir!! Ýtið hér
til að sjá myndir.
29.09.2009

Nú eru haustverkin að hefjast fyrir alvöru. Búið að
þreskja kornið og heyskapurinn kláraðist loksins í dag.
Það var gott að það hafðist fyrir mánaðarmótin!!! Það
var ekki mikil uppskera af korninu í ár, akurinn var á
mjög rýrum og grýttum jarðvegi, svo það fór illa í þurrkunum
í sumar. Við fengum þó slatta sem endist
eitthvað fram á veturinn. Við völsum og sýrum kornið
með propionsýru og geymum það í fiskikerjum. Kýrnar
eru alveg vitlausar í það og vonandi mjólka þær vel af því
líka.
28.09.2009

Hér koma nokkrar myndir frá réttunum í ár. Eins og
vanalega var frábært veður, 16 stiga hiti og sól, og
kindurnar latar eftir því. Það gekk samt vel að smala
og heimturnar voru góðar. Margt var um manninn og
mikið fjör hjá yngri kynslóðinni við að draga. Við
hjónin erum búin að fara í nokkrar göngur í ár, þannig að
gönguformið er bara orðið nokkuð gott. Fyri utan okkar
eigið gangnasvæði fórum við á Grjótárdal fyrir Sigurð á
Staðarbakka og svo göngum við Barkárdalinn og
Sörlatungudalinn fyrir Þúfnavelli.
15.09.2009

Tíminn flýgur hjá og allt í einu kominn miður september og
fyrstu göngur búnar. Nú er búið að sónarskoða
merarnar sem voru hjá Mola og voru þær sem betur fer
flestar fylfullar. Þó er hann enn með nokkrum merum
sem komu seint í hólfið þannig að vertíðinni hans er ekki
alveg lokið ennþá. Það er hún Elfa Ágústsdóttir
dýralæknir á Akureyri sem sónarskoðar alltaf hópinn fyrir
okkur. Einnig eru þeir Stígur
frá Skriðu og Geisli frá Úlfstöðum búnir að
gagnast þónokkrum merum í sumar.
25.08.2009

Hún Birta Moladóttir var sýnd í kynbótadómi í síðustu viku.
Birta er 4. vetra undan Mola og Frigg frá Brún. Birta er
rosalega geðgóð og frábærlega skemmtilegt tryppi. Hún
er lítið farin að skeiða ennþá en á mikið inni. Hún
hlaut 7.90 í byggingu sem skiptist svona: 7,5-
8,5-8-8-7,5-7-8-7. Fyrir hæfileika fékk hún svo
7,5-8-5,5-7,5-8-7,5-8 sem gerir 7,38 Aðaleinkunn
7,59.
20.08.2009

Við erum búin að bralla ýmislegt skemmtilegt í sumar, við
brugðum okkur til dæmis á Barðastönd um daginn að heimsækja
vinafólk okkar á Brjánslæk. Þar var mikið fjör enda
ekki við öðru að búast þegar tvær barnmargar fjölskyldur
koma saman. Það jafnast ekki margt á við stöndina
þarna fyrir vestan, sannkallaður sólstrandarfílingur.
Svo var bara hægt að skola saltið af sér í læk skammt frá,
þar sem myndaðist þessi fína "kalda" sturta.

Svo fór Sigga með Línu og co í frábæra ferð út í Drangey að
skoða lunda, álkur, seli, höfrunga og kletta. Það er
frábært að vera túristi á Íslandi!!

Sörlastaðir eru eyðibýli í Fnjóskadal sem hestamenn hafa til
afnota. Þangað er alltaf jafn gott að koma, frábærar
reiðleiðir til allra átta en stundum svolítið mikið af
mýflugu. Þessar myndir voru teknar þar í sumar.
19.08.2009

Þessar skemmtilegu myndir voru teknar í lok júní, þegar við
rákum tryppin okkar fram á Barkárdal. En þar verða þau
eitthvað fram eftir hausti. Á fyrstu myndinni eru
heiðurshjónin Elvar Reykjalín og Guðlaug frá Hauganesi.
Á annari myndinni eru þeir Björn og Atli, greinilega búnir á
því eftir þrælkunina í Skriðu, á þriðju myndinni eru
þeir bræður Agnar og Egill "í loftinu" og svo sést
ógreinilega yfir tryppahópinn sem skilinn var eftir á
dalnum.
27.07.2009

Um helgina vorum við á æskulýðsmóti Norðulands á
Melgerðismelum. Það er barna og unglingamót sem Léttir
og Funi standa fyrir. Þetta var rosalega fjölbreytt og
skemmtilegt mót þar sem leikgleðin er höfð að leiðarljósi.
Ratleikir, þrautabraut, reiðtúr og létt keppni.
Krakkarnir okkar tóku öll þátt og höfðu gaman af. Við
lentum í allskyns ævintýrum og lentum til dæmis´í skaðræðis
hagléli í reiðtúrnum og svo helli rigningu þar á eftir.
Allir urðu rennandi blautir og því ákveðið að skella sér
bara í Djúpadalsána og var hún þrædd fram og til baka með
tilheyrandi buslugangi.
Á morgun er svo stefnan tekin á Sörlastaði í 3. daga
hestaferð og ef eitthvað er að marka skeytin verður sú ferð
einnig blaut en enginn er verri þó hann vökni!!
17.07.2009

Meira um fjallgöngur!! Dellurnar fóru í sína árlegu
stórgöngu á miðvikudaginn var. Fyrir tveimur árum
gengum við Þorvaldsdalinn og í fyrra gengum við yfir
Heljardalsheiði. Í ár var gengið frá Staðarbakka og
fram Hörgárdalinn, gegnum Sandárdal og niður í Myrkárdal og
komið niður hjá Myrká. Við lentum í svartaþoku
en römbuðum þó á rétta leið og skiluðum okkur allar til
byggða. Þetta var 26 km. ganga og skemmtum við okkur
konunglega. Enduðum svo í pottinum á Þeló og í kínamat
í Litlu-Brekku. Það var hún Halla Björk Þorláksdóttir
frá Baldursheimi sem tók þessar myndir, önnur af öllum
hópnum og hin af Jónínu í Litlu-Brekku og Huldu í
Litla-Dunhaga (sem á einmitt afmæli í dag).
14.07.2009

Þór tók þátt í landsmóti UMFÍ sem fór fram á Akureyri í
blíðskaparveðri um síðustu helgi. Hann keppti fyrir
UMSE og halaði inn þónokkrum stigum fyrir félagið.
Hann keppti á Geisla frá Úlfstöðum í fjórgangi og lenti í
öðru sæti, Seif í fimmgang (3. sæti) og gæðingaskeiði (4.
sæti) og svo á Hákon í tölti. Þór keppti einnig í
starfshlaupi sem fór fram í nýjum og stórglæsilegum
frjálsíþróttavelli bæjarins. Hann kom öllum á óvart og
lenti í 4 sæti þar. Í starfshlaupinu þurfti hann, auk
þess að hlaupa auðvitað, meðal annars að lesa ljóð, þekkja
fisktegundir, meta lambskrokka, borða ís og harðfisk, meta
stærð og þyngd góðra manna og svo framvegis. Þetta var
frábær skemmtun eins og allt á þessu vel heppnaða landmóti.
14.07.2009

Nú er orðið verulega langt síðan eitthvað hefur komið inn á
heimasíðuna. Enda kominn mánuður af endalausri blíðu
og önnum. í dag rignir svo loksins var sest aðeins við
tölvuna!! Nú er fyrri slætti næstum lokið, kindurnar
allar löngu komnar á fjall, nema þessar 10 sem koma alltaf
aftur!! Moli komin að sunnan og í hólf, Stígur yngi
bróðir hans komin í hólf vestur í Húnavatnssýslu.
Flest öll folöldin fædd, tryppin komin fram á Barkárdal og
kýrnar mjólka eins og vanalega. Björn verknemi er
horfin til síns heima og Jóhannes Gunnar tekinn við í
sumarfríinu sínu. Einnig er hérna hjá okkur 15 ára
strákur frá Akureyri sem heitir Atli. Malin
tamnigakonan okkar er nýkomin úr fríi í Svíþjóð og hún og
Eyrún komnar með fullt af tryppum til að temja. Svo allt er
í fullum gangi í sveitinni eins og vanalega.
Þess á milli hefur húsbóndinn aðeins skroppið í tófur og
húsmóðirin í fjallgöngur. Við hjónakornin tókum okkur
til eitt kvöldið og hlupum í gegn um Þorvaldsdal, í keppni
við tímann. Vorum 3 og hálfan tíma og vorum bara ánægð
með okkur þangað til við vöknuðum daginn eftir. En
ekki orð um það meir. Meðfylgjandi eru svo bara nokkrar
myndir með til gamans. Agnar er þarna á nýja hestinum
sínum, honum Glæsi. En við fengum hann ásamt annari
meri austan úr þingeyjarsýslu handa strákunum að ríða á.
10.06.2009

Nýr hestur á sölusíðunni, það er
hann Hómer frá Húsavík.
05.06.2009

Hún Eyrún var fermd núna 31. maí í Möðruvallakirkju og svo
var grillveisla á Melum á eftir. Dagurinn var fínn,
nóg að borða og sólskinsveður. Sjáið fleiri myndir af Eyrúnu
með því að klikka hér.
04.06.2009

Kýrnar áttu svona dekurdag um daginn eins og er svo mikið í
tísku núna. Þær fengu fótsnyrtingu, klaufir klipptar,
snyrtar og pússaðar. Þær virtust ekkert kunna að meta
þetta dekur og voru mjög fegnar þegar þær sluppu úr
meðferðinni. Það var hann Egill Már sem ljósmyndaði
viðburðinn.

Svo fengum við líka skemmtilega heimsókn um daginn en það
hópur af litlum krökkum sem kom að skoða lömbin og öll hin
dýrin í sveitinni.
25.05.2009


Nóg er búið að vera að gerast í hestamennskunni undanfarið.
Opna Norðurlandsmótið í hestaíþróttum, firmakeppni Léttis,
berbaktreiðin og Goðamótið allt í einni bunu.
Meðfylgjandi eru svipmyndir frá mótunum. Sjá má fullt
af myndum og öll úrslit inn á
www.lettir.is . Þó vantar enn myndir af
Goðamótinu, það er krakka og unglingamót sem haldið var í
reiðhöllinni á laugardaginn síðasta. Þar kepptu öll
börnin og stóðu sig vel. Hann Jónsteinn Helgi (4 ára)
tók ekki annað í mál en að keppa á sínum hesti í
teymingaflokk, henni Birtu Moladóttir sem er líka 4 ára.
Þau voru flott saman og eiga vonandi eftir að fara marga
hringi saman í framtíðinni. Agnar keppti á Vöku og
Egill á Snerli. Eyrún keppti á Geisla frá Úlfstöðum og
lenti í öðru sæti í fjórgangi og fetaði þar í fótspor föður
síns. En hann endaði einnig í öðru sæti á Geisla á
opna norðurlandsmótinu og einnig í firmakeppninni.
Berbaktsreiðin var hin mesta skemmtun, en Þór, Sigga og
Björn (verknemi frá Hvanneyri) vippuðu sér öll á bak og tóku
þátt.
19.05.2009



Þetta eru nú tveir nýjustu gullmolarnir á bænum, bæði undan
Mola okkar. Í efstu röðinni er
hún List frá Fellskoti með litla
spegilmynd af sjálfri sér sem hefur ekki hlotið nafn ennþá.
Ægilega grannbyggt og gæalegt merfolald. Svo er það
hann Skúmur töffari undan Svölu.
Skúmur er eins og sjá má mjög sperrtur og fjörugur kappi.
Það var hún Anna Guðrún sem tók þessar frábæru myndir.
List er svo á leiðinni suður á land að hitta hann Álf frá
Selfossi svo vonandi kemur önnur skjótt meri að ári.
18.05.2009

Nýtt hross á sölusíðunni.
Hylling frá Skriðu.
17.05.2009

Alltaf dettur manni nú eitthvað í hug. Ég dreif mig í
BOOT CAMP fyrir nokkrum vikum síðan og hef rosalega gaman
af, mæli með því fyrir alla sem hafa gaman af púla og vera
pínu "vondir" við sjálfan sig. Ég var ekki búin að
vera nema 2 vikur í þjálfun þegar ég var búin að samþykkja
að vera með í liðakeppni í þrekmeistarnum, en mótið fór fram
í íþróttahöllinni á Akureyri. Keppendur voru allstaðar
að af landinu og 13 lið skráð til leiks í kvennaflokki.
Við komum okkur og öðrum á óvart og lentum í 3 sæti og
komumst því á verðlaunapall, dálítið var nú búið að gera
grín af mér fyrir keppnina en sá hlær best sem síðast hlær.
Frá vinstri eru Sandra, þá Íris, svo Guðrún, ég og Emma.
Þetta sama kvöld fór svo fram kvennatölt með kántrý þema
í reiðhöllinna í Akureyri. Ég tók þátt í
dulargervi Dolly Parton. Frábært kvöld og fullt af
myndum frá töltinu eru á
www.lettir.is. Á myndinni er hún Lina okkar
Eriksson sem var einu sinni tamningakona hjá okkur.
Hún er óneitanlega ótrúlega hugmyndarík enda átti hún búning
kvöldsins skuldlaust.
07.05.2009

Þór fór með Mola suður í dag. Hann verður í húsnotkun
í Fellskoti í Biskupstungum í vor. Ýtið á
2009 til að fá allar
upplýsingar um notkun 2009.

Nú eru hryssurnar farnar að kasta.
Héla kastaði rauðstjörnóttri hryssu nýlega sem er undan
Stíg frá Skriðu, Hún hlaut nafnið
Stör. Á fyrstu 2 myndunum er Stör en á þeirri síðustu er svo
Stígur sjálfur sem folald. Eins og sjá má eru þau
svolítið lík !!
Héla og Stör fengu svo að fljóta með suður og fór Héla
undir Ægir frá Litlalandi og verður spennandi að vita
hvernig það verður.
05.2009

Æskan og hesturinn fór fram í reiðhöllinni á Akureyri í
laugardaginn og var það frábær skemmtun fyrir alla
fjölskilduna. Atriðin voru fjölbreytt og skemmtileg.
Margir með flotta búninga, þarna voru prinsar og prinsessur,
kúrekar, mjallhvít og dvergarnir, kardemommubærinn,
huldufólk, gamli tíminn sýndur og margt fleira. En það
eru börn og unglingar frá hestamannafélögum af öllu
norðurlandi sem sýna á sýningunni.
www.lettir.is myndasíða,
þar eru fullt af myndum af sýningunni.
03.05.2009

Úrslitakvöldið í KEA mótaröðinni var síðasta vetrardag. Þór
varð efstur í samanlagðri stigasöfnun eftir allt mótið og
kom því heim með nokkur verðlaun í safnið. Sjá
www.lettir.is myndasíða,
þar eru fullt af myndum frá keppninni og einnig frá
sýningunni fákar og fjör.
27.04.2009

Langt síðan ég settist niður og skrifaði einhverjar fréttir
síðast en betra er seint en aldrei. Nú er vorið held
ég bara komið, veðrið frábært, lömbin farin að kíkja í
heiminn og manni farið að líða eins og maður þurfi að gera
allt í einu og viti ekki á hverju sé best að byrja. Þó er
alltaf smá tími fyrir hestamennskuna. Laugardaginn 18.
apríl var reiðhöllin á Akureyri (Topreiterhöllin) formlega
vígð með stórsýningu í höllinni. Atriðin voru mörg og
hvert öðru glæsilegra og skemmtilegra. Við hjónin
vorum með í atriðinu "fjörtök í hjónabandi" ásamt
heiðurshjónunum "Guðmundi og Helgu", og "Ólafi og Önnu
Katarínu". Ég held að þetta hafi bara gengið vel hjá
okkur allavega skemmtum við okkur ágætlega. Eyrún var
svo með unglingunum í upphafsatriðinu á Geisla frá
Úlfstöðum. Geisli kunni ekki að meta klappið og
fagnaðarlætin í höllinni og varð hálfhræddur en Eyrúnu tókst
að róa hann niður og þá gekk þetta bara vel. Á síðustu
myndinni eru svo börnin, þar á meðal Egill, að koma með
hnakka sem Topreiter gaf hestamannafélaginu.
15.04.2009

Síðasta laugardag var haldið mót fyrir börn og unglinga í
reiðhöllinni á Akureyri. Keppt var í tölti í
barnaflokk og í tölti og fjórgangi í unglinga og
ungmennaflokk. Agnar og Egill kepptu í barnaflokki og
stóðu sig vel. Eyrún keppti bæði í tölti og fjórgangi
á Gusti og stóð sig einnig vel að vanda. Hún vann
fjórganginn en komst ekki í úrslit í tölti.
Þetta var skemmtilegt mót, lífland gaf verðlaunagripina en
einnig fengu allir keppendur páskaegg.
11.04.2009

Gleðilega páska!! Hún Alexía Bartolozzi, frænka okkar,
hefur rosalega gaman af því að fara á hestbak á hann
Grettir og notar gjarnan tækifærið
þegar hún kemur norður og bregður sér á bak. Þarna er
hann Egill Már svo að aðstoða frænku sína. Enda er
hann með Grettir í stífri þjálfun í vetur en Grettir er nú
að verða 24 vetra í vor og er farin að láta aðeins á sjá.
Það er von okkar að hann endist sem lengst þar sem hann er
án efa besti barnahestur sem hægt er að hugsa sér.

Hún Kátína (Fáfnisdóttir) okkar er nú farin til nýrra
eiganda á Sauðárkróki og vonum við að hún eigi eftir að
reynast nýjum eigendum vel.
06.04.2009


Síðasta fimmtudagskvöld fór fram Árshátíð Þelamerkurskóla og
var hún hin glæsilegasta. Fjölmörg skemmtiatriði og
greinilegt að krakkarnir og starfsfólkið lagði mikinn metnað
í kvöldið. Takk fyrir skemmtunina. Myndirnar tók
Anna Guðrún í Fornhaga.
Núna eru krakkarnir í páskafríi og njóta þess auðvitað í
botn. Nóg að gera hjá þeim: riðið út, farið á
skíði eða sund, leikið við vinina og glápt á sjónvarp
fram eftir kvöldi.
28.03.2009

Við fengum góða gesti í hesthúsið í dag en það voru þær
Jónína (systir), Inga Matt, Anna Rósa og Dóra, allar
kennarar í Þelamerkurskóla. Dóra á stórafmæli í dag og
var hún tekin á sveitarúnt í tilefni dagsins. Allar
fóru þær svo í hnakkinn og tóku sig vel út. Stefna þær
nú flestar á að taka þátt í næsta Bjargarmóti, allavega voru
höfð um það stór orð í dag en sjáum svo hvað setur.
Til hamingju með daginn Dóra!!
17.03.2009

Á laugardagskvöldið fór Þór vestur á Sauðárkrók að taka þátt
í áskorandakeppni riddara norðursins. Þetta er svona
liðakeppni, þar sem keppt er í 4 greinum og má ekki vera
sami knapi í neinni grein. En Það er hann Þorbjörn
Matthíasson sem velur í lið fyrir Eyfirðinga.
Þorbjörn keppti í tölti, Anna Catarina í fjórgangi, Vignir í
fimmgangi og Þór í skeiði á Seif. Þór varð í öðru sæti
í skeiði en liðið þeirra vann heildarkeppnina eftir
mikil átök í reipitogi. Tvö lið voru jöfn, Eyfirðingar
og Íbishóll og voru úrslitin semsagt ákveðin í reipitogi.
14.03.2009

Á föstudagskvöldið fór fram 3 mótið í KEA mótaröðinni.
Það var keppt í smalakeppni og Gæðingafimi og var þetta
frábært kvöld. Smalakeppnin mjög skemmtileg og svo
gekk Þór og Malin mjög vel. Malin varð í öðru sæti í
smala, í keppni minna keppnisvanra, á Gullbrá og Þór varð 3.
í gæðingafiminni á Gusti frá Hálsi.
Þór vann svo smalakeppnina á Undra frá Mið-Koti en sá hestur
var fenginn að láni hjá Þórdísi í Auðbrekku. Þór mætti
náttúrulega í smaladressinu að sveitamannasið en látum
myndirnar tala sínu máli en þær voru fengnar á heimasíðu
Léttis www.lettir.is og
má þar sjá fullt af myndum frá þessu skemmtilega kvöldi.
Þór er nú efstur í samanlagðri stigakeppni mótanna en mjótt
er á munum og mun áframhaldið verða spennandi.
12.03.2009

Nýtt hlutafélag var stofnað í sveitinni, á laugardaginn
síðasta, um meri nokkra sem lítið er vitað um annað er að
hún er rauðtvístjörnótt sokkókk og einkar glæsileg.
Ein tillaga er komin af nafni á merina og er það nafnið
Torfa (í höfuðið á fyrrum eiganda auk þess sem meirihluti
félagsmanna eru búsettur í Torfunni svokallaðri.)
Félagsskapurinn verður þá líklega kallaður Torf-groop eða
eitthvað áþekkt en um þetta á að greiða atkvæði á fyrsta
aðalfundi sem haldinn verður mjög fljótlega. Á
myndinni eru frá vinstri Jóhannes Gísli í Þríhyringi,
stofnandi Torf-groop, svo Torfa og svo Þór formaður. Á
myndina vantar Gest Hauksson gjalkera og Arnar Sigfússon
ritara.
Ef einhver telur sig þekkja merina og vita eitthvað um
ættir eða uppruna endilega hringið í Þór eða Gísla.
08.03.2009


Í Febrúar kom Christina Lund, eigandi Álfs frá Selfossi, til
okkar ásamt 2 vinkonum sínum. Þær voru að skoða
afkvæmi Álfs og safna myndum á heimasíðuna hans
sem verið er að útbúa. Við
eigum 1 og hálft tryppi undan honum þau Álm og Bliku, en
Bliku eigum við með Arnari á Vindheimum. Tina
Johanssen tók þessar myndir í þessari heimsókn. Það er
einnig mynd af Bliku á
www.foli.is/?p=660
03.03.2009
Enn fleiri hross á sölusíðunni,
Kátína (Fáfnisdóttir) og Anastasia(Þorradóttir)
01.03.2009

Ný hryssa á sölusíðunni okkar, Flóra frá Árgerði 5 v.
alhliðameri. Ýtið hér til
að sjá myndir og frekari upplýsingar um hana.
23.02.2009

Lífið gengur sinn vanagang hér í sveitinni á þessum tíma.
Veðrið er búið að vera frábært en í dag snjóar
svolítið. Malin og Þór eru að temja tryppin en ég er
meira í því að temja kvígur!!! Í haust bar hópur af
kvígum, þær mjólka allar nokkuð vel og eru ágætlega þægar.
Núna hins vegar er annar hópur að bera og eru þær
flestar óþægar og efni í miklar leiðindaskjóður (greyin).
Krakkarnir eru byrjuð á reiðnámskeiði í reiðhöllinni á
Akureyri og er það hún Lina Eriksson sem er að kenna þeim.
Á myndunum eru þeir Páll Skúlason á Seif, Sverrir á
Geisla og Þór á Mola. En Páll og Sverrir riðu grimmt
út um helgina á hestunum sínum og höfðu gaman af.
08.02.2009

KEA mótaröðin hófst í reiðhöllinni á Akureyri á
Laugardagskvöldið. Þór og Malin, sænska tamningakonan,
fóru og kepptu. Keppt var í fjórgangi og skeiði.
Malin keppti á Gullbrá í fjórgangi og gekk bara ágætlega en
komst þó ekki í úrslit. Þór lenti í 3. sæti í
fjórgangi á Geisla frá Úlfstöðum og í 1. sæti í skeiði á
Seif. Sem sagt góð byrjun á spennandi keppni.
Þetta var þó einungis undankeppnin. Öll úrslit fara
fram í lokin á vígluhátið reiðhallarinna, Fákum og fjöri.
06.02.2009

Það skiptast á skin og skúrir í hestamennskunni á bænum.
Hún Flétta, reiðhryssan hans Agnars Páls, týndist um daginn
og vorum við búin að leita og leita. Hún fannst
að lokum liggjandi hér í hólfinu rétt utan við bæinn, og er
nú á hærri tilvistarsviðum. Hennar er auðvitað sárt
saknað, enda mikil öðlings hryssa. Þæg og viljug.
Fyrsta myndin er tekin á Bjargarmótinum síðastliðið sumar,
þar sem þau unnu pollaflokkinn. Næstu 2
myndirnar eru teknar á Króknum, á sýningunni æskan og
hesturinn síðastliðið vor. Sú fjórða er svo tekinn á
Goðamótinu á Akureyri 2008.
27.01.2009

Moli frá Skriðu - notkun 2009.
25.01.2009

Í dag var uppskeruhátíð hjá börnum og unglingum í
hestamannafélaginu Létti á Akureyri. Var hún haldin á
La vita bella, þar voru snæddar pizzur og fleira og dagskrá
vetrarins kynnt lauslega. Nú eru að fara í gang ýmis
námskeið á vegum félagsins og vonandi verða þau vel sótt.
Öll börnin fengu svo viðurkenningarskjal fyrir þáttöku í
starfinu á síðastliðnu ári og einnig voru fjórir krakkar
verðlaunaðir sérstaklega. Þar á meðal hlaut hún Eyrún
okkar titilinn knapi ársins í barnaflokki og erum við að
vonum stolt af því. Stefanía Árdís var svo knapi
ársins í unglingaflokki, Guðlaugur Ari fékk verðlaun fyrir
góða mætingu (ástundun) og Tómas fyrir framfarir.
Þetta var skemmtileg stund og virðist nú sem skemmtilegur
vetur sé að hefjast í hestamennskunni hjá krökkunum.
20.01.2009


Á laugardaginn var hin árlega folaldasýning Framfara haldin.
Að þessu sinni var hún haldin á Ytri-Bægisá hjá Hauk og
Þorra. 65 folöld mættu til leiks og voru þau auðvitað
hvert öðru glæsilegra. Dómararnir voru 3, þeir
Höskuldur Jónsson, Stefán Birgir Stefánsson og Þórarinn af
Skallagrímsætt úr Þistilfirði. Dómararnir völdu fyrst
6 hryssur og 6 hesta í undanúrslit og svo 3 efstu úr þeim
hópi. Við áttum efsta hestfolaldið hann Álm frá Skriðu
sem er undan Álfi frá Selfossi og Moladótturinni
Dalrós frá Arnarstöðum.
Álmur er á 2 fyrstu myndunum. Í öðru sæti var svo Milljarður
frá Barká (undan Rökkva frá Hárlaugsstöðum) og í því
þriðja var svo Þjarkur frá Skriðu (síðasta myndin)en hann er
undan Sif (Sunnudóttir) frá Skriðu
og Geisla frá Úlfstöðum. Við áttum einnig einn fola í
viðbót í 6 hesta úrslitum en það var Djákni frá Skriðu undan
Mola og Sóley frá Kálfskinni.
Efst í hryssunum var Leynd frá Litlu-Brekku einnig undan
Álfi. Í öðru var Tildra frá Glæsibæ og í því þriðja
var Álfamær frá Barká. Við áttum svo eina meri í
undanúrslitunum en það var Bylgja frá Skriðu undan Dimmu frá
Akri og Markúsi. Bylgja er á 4 myndinni ásamt
hálfsystir sinni Elju frá Skriðu undan
Rauðhettu og Markúsi. Á
fimmtu myndinni eru svo Djákni frá Skriðu (nær) og
Kjarkur frá Skriðu, tveir flottir Molasynir. Kjarkur
er undan Sunnu frá Skriðu. Álmur var svo einnig
kosinn glæsilegasta folaldið, en það eru áhorfendur sem
kjósa það.
Þetta var skemmtilegur dagur, margt fólk og allir virtust
skemmta sér vel. Verðlaunin voru ekki af verri endanum
heldur, folaldakjöt bæði reykt, nýtt og saltað í fötu. Það
var sláturhúsið og kjötvinnsla B.Jenssen sem gaf verðlaunin.
Síðan var uppskeruhátíð Framfara haldin um kvöldið á Melum
og var þar partý fram á nótt.
10.01.2009

kíkið inn á Hross til sölu!!
|